Nýjast á Local Suðurnes

Skoða möguleika á aðkomu íbúa að frekari uppbyggingu kísilvera í Helguvík

Undirskrifalisti Andstæðinga Stóriðju í Helguvík og íbúakosning varðandi uppbyggingu kísilvera í Helguvík var rædd á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær. Á fundinum kom fram að umræddir undirskriftalistar hafi uppfyllt fá skilyrði sem gerð eru til slíkra lista. Þá segir meirihluti bæjarstjórnar í bókun að til það verði skoðað með hvaða hætti íbúar geti komið að málum er varða uppyggingu í Helguvík, sé þess nokkur kostur.

Bókun meirihlutans í heild:

Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar þann 28. mars sl. voru lagðir fram undirskriftalistar með áskorun til bæjarstjórnar um að efna til bindandi íbúakosningar um starfsemi kísilvera í Helguvík.
Í minnisblaði bæjarlögmanns sem var hluti af framlögðum gögnum kemur eftirfarandi fram:

„Grundvöllur slíkrar íbúakosningar er heimild 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138 frá 2011 og reglugerð nr. 155 frá 2013 um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum.

Tilkynna þarf sveitarstjórn um fyrirhugaða undirskriftasöfnun þar sem óskað er eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið mál er varðar sveitarfélagið. Tilkynningin þarf að vera undirrituð af a.m.k. þremur einstaklingum og þar á að koma fram tilefni undirskriftasöfnunar og ábyrgðaraðili.

Ekki var leitað til bæjarstjórnar varðandi undirskriftasöfnunina og þar af leiðandi er undirbúningur og framkvæmd hennar ekki í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar og því ófullnægjandi sem grundvöllur íbúakosningar.
Þá gafst bæjarstjórn Reykjanesbæjar ekki tækifæri til að meta hvort ákvæði 3. mgr. 108 gr. sveitarstjórnarlaga hamli því að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu.

Ákvæði 4. gr. reglugerðarinnar var ekki fullnægt varðandi söfnun undirskrifta. Þá er skilyrðum 5. gr. og 6. gr. reglugerðarinnar um hlutverk ábyrgðaraðila og afhendingu undirskrifta ekki fullnægt.

Niðurstaða: Undirbúningur og framkvæmd fyrirliggjandi undirskriftasöfnunar eru ekki í samræmi við 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og reglugerðar nr. 155/2013 og því ekki grundvöllur íbúakosninga.”

Það er því ljóst að bæjarstjórn Reykjanesbæjar getur ekki lagt til að farið verði í bindandi íbúakosningu á grundvelli þessarar undirskriftasöfnunar. Þó er ljóst að þessir undirskriftalistar gefa skýrt til kynna að stór hópur íbúa vilji koma að frekari ákvörðunum um framhald reksturs kísilsvers Stakksbergs í Helguvík ásamt því að vilja hafa áhrif á það hvort Thorsil hefji rekstur kísilmálmverksmiðju á sama stað.

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur nú þegar lýst þeirri skoðun sinni að starfsemi af þessu tagi sé óhentug svo nærri íbúabyggð og hefur skorað á viðkomandi fyrirtæki að hætta við frekari uppbyggingu í Helguvík. Það er því ljóst að meirihluti bæjarstjórnar deilir skoðunum með þeim sem rituðu nafn sitt á undirskriftalistana og mun í framhaldinu skoða möguleika á aðkomu íbúa að frekari uppbyggingu kísilvera í Helguvík sé þess nokkur kostur. Bindandi íbúakosning um meiriháttar breytingu á deiliskipulagi gæti verið leið til þess.“