Nýjast á Local Suðurnes

Skipulagsmál fyrirferðamikil á fundi Umhverfis- og skipulagsráðs – Átta athugasemdir vegna sundhallarreits

Alls bárust Reykjanesbæ átta athugasemdir við tillögu að  breytingu á deilidkipulagi við Framnesveg 11 sem er lóðin sem gamla sundhöllin stendur á. Tvær athugasemdir bárust varðandi Aðalskipulags- og deiliskipulagsbreytingu við Víkurbraut 21 og 23, en þar stendur til að byggja fjölbýlishús.

Tillögur vegna breytinganna voru teknar fyrir á fundi Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar í gær þar sem farið var yfir þær athugasemdir sem bárust. Á fundinum kom fram að skoða þurfi betur aðkomu að lóð auk þess sem greina þurfi umferðarskipulag heildarsvæðis Víkurbrautar og Pósthússtrætis og var erindinu því frestað. Þá var erindi byggingaraðila vegna Framnesvegar 11 einnig frestað.

Þá var tekin fyrir niðurstaða kynningar á tillögu að deiliskipulagi Dalsbraut 3 og 5, þar bárust engar athugasemdir og var samþykkt að senda breytt skipulag til Skipulagsstofnunar til endanlegrar afgreiðslu.

Fleiri breytingatillögur voru til umræðu á fundinum, en Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar samþykkti heimild til að leggja fram tillögu að breyttu aðalskipulagi ásamt tillögu að breytingu á deiliskipulagi samhliða vegna Klettatraðar 8 og 10 á Ásbrú.