Nýjast á Local Suðurnes

Skipað í stjórn og nefnd vegna sameiningar – Róbert Verkefnastjóri

Undirbúningsstjórn sem hefur það hlutverk að undirbúa sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs hefur tekið til starfa. Hlutverk undirbúningsstjórnar er að tryggja að sameiningin gangi hnökralaust fyrir sig og undirbúa þau verkefni sem bíða nýrrar sveitarstjórnar. Jafnframt skal undirbúningsstjórnin ganga frá nauðsynlegum skjölum svo sveitarstjórnarráðuneytið geti staðfest sameininguna með formlegum hætti.

Undirbúningsstjórnin hefur ráðið Róbert Ragnarsson sem verkefnisstjóra og er hann starfsmaður stjórnarinnar ásamt bæjarstjórunum Magnúsi Stefánssyni og Sigrúnu Árnadóttur.

Í undirbúningsstjórninni sitja eftirfarandi fulltrúar og fundar hún að jafnaði vikulega um þessar mundir.

  • Daði Bergþórsson
  • Einar Jón Pálsson
  • Hólmfríður Skarphéðinsdóttir
  • Jónína Holm
  • Jónína Magnúsdóttir
  • Ólafur Þór Ólafsson

Þá hefur einnig verið skipuð nafnanefnd sem kallar eftir tillögum að nafni fyrir nýja sveitarfélagið. Nefndin mun velja nöfn úr tillögunum og senda Örnefnanefnd til umsagnar. Öllum er frjálst að senda inn tillögur.

Um miðjan mars mun fara fram atkvæðagreiðsla meðal íbúa Sveitarfélagsins Garðs og Sandgerðisbæjar um nafn hins sameinaða sveitarfélags. Valið mun standa á milli 3-5 tillagna sem hlotið hafa jákvæða umsögn Örnefnanefndar. Atkvæðagreiðslan verður leiðbeinandi en ekki bindandi. Nafn hins sameinaða sveitarfélags verður staðfest af nýrri sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags sem kjörin verður 26. maí næstkomandi.

Samkvæmt lögum skal nafnið samrýmast íslenskri málfræði og málvenju og tengjast viðkomandi svæði sérstaklega.  Æskilegt er að nafn sveitarfélagsins beri með sér að um stjórnsýslueininguna sveitarfélag sé að ræða, þ.e. að heiti sveitarfélagsins endi til dæmis á, -bær, – kaupstaður, -byggð, -þing eða að Sveitarfélagið sé skeytt framan við nafnið. Tekið er fram að ekki er verið að horfa til núverandi stjórnsýsluheita sveitarfélaganna eða tilvísunar í þau. Nöfnin Sandgerði og Garður verða áfram notuð um byggðakjarnana og koma ekki til álita sem nöfn á hið nýja sveitarfélag.

Hægt er að skila tillögum á bæjarskrifstofur sveitarfélaganna, eða með því að senda tölvupóst á netfangið nyttnafn@sandgerdi.is eða nyttnafn@svgardur.is

Til að gæta hlutleysis hefur nefndin ákveðið að fara fram á að tillögur njóti nafnleyndar þar til nafn hefur verið valið. Það skal gert á þann hátt að tillaga að nafni, ásamt nafni og heimilisfangi höfundar, skal sett í umslag og því lokað. Utan á umslagið skal á ný skrifa tillöguna að nafni sveitarfélagsins. Umslaginu skal komið á bæjarskrifstofu og það merkt „Nafn sameinaðs sveitarfélags“. Starfsmaður nefndarinnar mun afmá nöfn af þeim tillögum sem berast rafrænt, til að tryggja nafnleynd höfundar.

Hér með óskar nafnanefnd eftir tillögum að nafni hins sameinaða sveitarfélags.

Skilafrestur er til kl. 12:00 þann 12. febrúar 2018.