Nýjast á Local Suðurnes

Silja Dögg og Ásmundur vilja auðvelda ungum bændum að hefja búskap

Silja Dögg Gunnarsdóttir mun leggja fram nokkur frumvörp og þingsályktunartillögur á alþingi á næstu misserum, frumvörpin sem Silja leggur fram varða bótarétt fanga, fæðinga- og foreldraorlof og þjóðfána okkar Íslendinga. Þingsályktunartillögurnar varða flutning Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja, aukinn stuðning vegna tæknifrjóvgana og nýtingu eyðijarða í ríkiseigu.

Síðastnefnda tillagan sem Silja Dögg flytur með Ásmundi Friðrikssyni miðar meðal annars að því að auðvelda ungum bændum að hefja búskap auk þess sem flutningsmenn tillögunar, sem eru auk Silju og Ásmundar Friðrikssonar þau Ásmundur Einar Daðason, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Haraldur Benediktsson, telja að betri nýting eyðijarða í eigu ríkisins muni styðja við ferðaþjónustu og matvælaframleiðslu.

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars: þörf er fyrir meiri matvælaframleiðslu á Íslandi, sérstaklega á mjólkurvörum og nautgripakjöti, og sumar þessara jarða eru heppilegar til matvælaframleiðslu. Auk þess stækkar ört sá hópur til sveita sem sinnir þjónustu við ferðamenn og hægt kann að vera að skapa atvinnutækifæri og efla jaðarbyggðir með markvissri aðgerð sem þessari.

Ungir bændur eiga í erfiðleikum með að hefja búskap þar sem bújarðir liggja ekki á lausu eða eru ákaflega dýrar. Með því að koma jörðum í notkun mætti að nokkru leyti leysa vanda nýliðunar, auka matvælaframleiðslu, tryggja byggðafestu og bæta atvinnumöguleika. Þessi aðgerð er mikilvæg sem hluti af stefnu núverandi ríkisstjórnar um að efla byggð og matvælaframleiðslu. Hún kemur til viðbótar þeim úrræðum sem nú eru í boði, svo sem nýliðunarstyrkjum í sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu og möguleika á styrk frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins til atvinnuuppbyggingar á lögbýlum.