Nýjast á Local Suðurnes

Sigvaldi Arnar hvergi nærri hættur – Afhenti Umhyggju rúmar 2 milljónir

Sigvaldi ásamt Tinnu Rut dóttur sinni afhenti Guðmundi Björgvini, formanni stjórnar Umhyggju, afrakstur göngunnar.

Sigvaldi Arnar Lárusson afhenti starfsmönnum Umhyggju ágóðan af söfnun sumarsins í gær. Sigvaldi safnaði 2.017.000 kr. með því að ganga frá Reykjanesbæ til Hofsóss.

Á göngu minni þvert yfir landið tókst mér að safna talsvert mikið af peningum til handa Umhyggju. Einnig bætti ég alveg heilum helling í reynslubankann minn sem mun nýtast mér um ókomna tíð.

Mér finnst gaman að segja frá því að ég afhenti Umhyggju 2.017.000.- krónur í dag en þó er verkefnið enn í gangi.
Á vegi mínum í sumar varð nefnilega góðhjartaður aðili sem hefur verið að bæta í söfnunina. Aðili þessi hefur sett það sem „skilyrði“ að þeir fjármunir sem hann leggur til verði afhentir fjölskyldum sem eru með veik börn, á Suðurnesjum.

Þessi aðili er búinn að bæta ofan á þessa tölu sem ég nefndi hér að ofan nokkur hundruð þúsundköllum og er það mér sannur heiður að fá að taka þátt í því að koma þessu fjármagni hér út í samfélagið okkar suður með sjó.

Fyrir nokkru síðan afhenti ég fjölskyldu í Njarðvík 150.000 kr sem komu frá þessum aðila og nú er kominn nýr styrkur, frá þessum aðila, fyrir unga stúlku sem býr í Keflavík og mun ég afhenda henni styrkinn síðar í vikunni.

Þetta verkefni er búið að gefa mér alveg helling og hver veit nema ég splæsi í fleiri svona verkefni í framtíðinni.