Nýjast á Local Suðurnes

Sigursælir Suðurnesjamenn fúlir: “Geta menn bara blásið af keppnir ef þeim sýnist?”

Rallycrosskappar af Suðurnesjum eru ekki par sáttir við forráðamenn Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar, eftir að rallycrosskeppni sem fram átti að fara um helgina var blásin af. Hætt var við keppnina þar sem of fáir keppendur skráðu sig til leiks.

Ökuþórarnir af Suðurnesjum töldu sig hins vegar geta bætt við keppendum þannig að lágmarksfjöldi myndi nást, í flestum flokkum, en það dugði ekki ti og er mikil óánægja í þeirra röðum með ákvörðunina, eins og sjá má í pistli sem Vikar Sigurjónsson birti í Facebook-hóp Rallycross-áhugamanna.

“Ég spyr með ábyrgðir gagnvart AKÍS og keppendum, geta menn bara blásið af keppnir ef þeim sýnist? Eru engar skyldur á þeim sem taka að sér keppnishald í Íslandsmóti innan ÍSÍ?
Ég veit allavega fyrir mitt leiti að sé þetta raunin þá er ég ekki að fara að eyða meiri pening í þetta á meðan stjórnendur AÍH taka þessu sem djóki og hafa engan áhuga á að halda úti keppnum og stimpla mig hér með út…” Segir Vikar meðal annars í pistli sínum.

Suðurnesjamenn hafa verið afar sigursælir í íþróttinni undanfarin ár og heyrir til undantekninga ef ökumaður af Suðurnesjum kemst ekki á verðlaunapall.

Uppfært klukkan 19:00 – Pistillinn hefur verið fjarlægður af Facebook-síðunni, en eftir því sem Suðurnes kemst næst mun keppnin ekki fara fram.