Nýjast á Local Suðurnes

Segir samning við Útlendingastofnun skapa álag á innviði Reykjanesbæjar

Endurnýjun og breytingar á samningi Reykjanesbæjar við Útlendingastofnun vegna móttöku flóttafólks voru ræddar á fundi bæjarstjórnar sveitarfélagsins í gær, en Útlendingastofnun hefur óskað eftir viðræðum við sveitarfélagið vegna þessa.

Fulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn, Margrét Þórarinsdóttir, lagði fram bókun vegna málsins þar sem hún segir meðal annars að álag á sjúkraflutningafólk hafi aukist verulega vegna aukinna flutninga á flóttafólki í sóttvarnarhús á höfuðborgarsvæðinu og veltir þeirri spurningu upp hvort þetta hafi áhrif á öryggi Suðurnesjafólks þegar kemur að slíkri þjónustu.

Bókun Margrétar í heild sinni:

Nauðsynlegt er að fara yfir reynsluna af fyrri þjónustusamningi áður en lengra verður haldið. Ljóst er að umsækjendum um alþjóðlega vernd fer fjölgandi og ekki hefur dregið úr umsóknum þrátt fyrir veirufaraldurinn og verulegan samdrátt í flugsamgöngum. Þjónustusamningurinn við Útlendingastofnun hefur haft í för með sér álag á ýmsa innviði bæjarins og skiptar skoðanir eru meðal bæjarbúa um þennan samning. Til að mynda hefur mikið álag verið á sjúkraflutningamönnum, sem hafa flutt hælisleitendur frá Leifsstöð í Sóttvarnarhúsið í Reykjavík undanfarnar vikur og hefur þetta álag vakið upp spurningar um hvort dregið hafi úr öryggi bæjarbúa þegar kemur að mikilvægri þjónustu slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.“

Margrét Þórarinsdóttir (M).