Nýjast á Local Suðurnes

Segir kjörstjórn vera hliðholla A-lista í kjöri til stjórnar VS – “Velja reglur sem henta sitjandi stjórn”

Tómas Elí Guðmundsson, formannsefni B-lista í kjöri til stjórnar Verslunarmannfélags Suðurnesja (VS), segir kjörstjórn vera hliðholla núverandi stjórn og þannig “velja” hvað hefðir og reglur séu notaðar í kosningunni. Þetta segir formannsefnið í aðsendri grein sem birtur er á vef Stundarinnar.

“Þeir sem hafa heyrt eða fylgst með tilraun B-listans til að reyna að koma á fót mótframboði til stjórnarkjörs í Verslunarmannafélagi Suðurnesja, geta verið sammála að lýðræði er ekki það sem kemur upp í huga þegar hugsað er um framferði kjörstjórnar vegna mótframboðs B-lista.

Hentugleiki virðist stjórna hvaða hefðir og reglur eru týndar til hverju sinni og varfærnislega valdar eingöngu þær, sem henta sitjandi stjórn, sem í þegjandi hljóði ætlar ekki með kosningu að fá staðfest hvort að umboð sé til staðar frá félagsmönnum.” Segir formansefnið í greininni.

Reglur félagsins vegna stjórnarkjörs virðast hins vegar vera kristaltærar hvað kjörstjórn varðar, en hún er skipuð þeim Magnúsi Norðdahl, sem er formaður kjörstjórnar og fulltrúi ASÍ, Anton John Stissi og Sigríði Birnu Björnsdóttur, sem kjörin eru af sitjandi stjórn og trúnaðarráði eins og reglur félagsins kveða á um.

“Kjörnefnd skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast um stjórn atkvæðagreiðslna um kjarasamninga, verkföll og allsherjaratkvæðagreiðslur skv. lögum félagsins. Nefndin skal kjörin af stjórn og trúnaðarráði og í henni skulu eiga sæti tveir menn og tveir til vara. Við stjórnun atkvæðagreiðslna um kjarasamninga og verkföll skipar trúnaðarráð þriðja nefndarmanninn og skal hann vera formaður nefndarinnar. Við stjórnun allsherjaratkvæðagreiðslna um önnur atriði skv. lögum félagsins og /eða lögum ASÍ skipar miðstjórn ASÍ þriðja nefndarmanninn og skal hann vera formaður nefndarinnar.” Segir í meðal annars í reglum félagsins.

Kjörstjórn úrskurðaði á dögunum að B-listi uppfyllti ekki, að mati kjörstjórnar, þau skilyrði sem sett eru fyrir framboði og úrskurðaði kjörstjórn að einungis einn listi væri löglega fram borinn A-listi, og þeir sem á þeim lista væru rétt kjörnir til trúnaðarstarfa fyrir félagið.

Forsvarsmenn B lista vildu ekki una niðurstöðu kjörstjórnar og hafa knúið fram félagsfund í VS vegna málsins. Fundurinn verður haldinn þann 12. apríl næstkomandi og verður ósk B-lista um framlengingu skilafrests á frambosgögnum vegna allsherjarkosningu í félaginu eina mál fundarins.