Nýjast á Local Suðurnes

Sandgerðisbær vinnur áfram í gúmmíkurlsmálum

Sandgerðisbær mun halda áfram að vinna að málum sem snúa að gervigrasvöllum þar sem gúmmíkurl er notað, en sem kunnugt er innihaldur slíkt kurl mögulega krabbameinsvaldandi efni. Samtökin Heimili og skóli fóru fram á það við sveitarfélög að gervigrasvellir þar sem notað er gúmmíkurl úr dekkjum verði endurnýjaðir í ljósi þessara upplýsinga.

Í Sandgerði var slíkur völlur settur upp árið 2009. Ýmis vinna hefur farið fram innandyra og hafa fulltrúar sveitafélagsins fylgst með framvindu málsins og kannað möguleikana á úrbótum.

Nú liggur fyrir til samþykktar þingsályktunartillaga sem miðar að gúmmíkurli úr dekkjum verði skipt út fyrir hættuminni efni á þeim leik- og íþróttavöllum sem þar er nú að finna. Samband Íslenskra sveitarfélaga hefur bent á að ekki liggur fyrir hvaða gúmmíefni uppfylla skilyrði að vera viðurkennd og telja að það hljóti að vera grundvallarforsenda fyrir því að hægt sé að fá niðurstöðu í málið til framtíðar.

Sambandið ráðleggur sveitarfélögum að fylgjast vel með framvindu málsins og mögulega bíða með endanlegar ákvarðanir þar til niðurstaða liggur fyrir. Sandgerðisbær mun halda áfram að vinna að málinu, fylgjast með umræðunni og möguleikunum áður en gripið verður til aðgerða.