Nýjast á Local Suðurnes

Sandgerðingar á undan áætlun – Skuldaviðmiði verði náð árið 2019

Ársreikningur Sandgerðisbæjar fyrir árið 2015 var lagður fram á dögunum og sýnir að vel hefur tekist að fylgja eftir langtímastefnu sem mörkuð var af bæjarstjórn fyrir rúmum fimm árum um að ná niður skuldum bæjarfélagsins, ná jafnvægi í rekstri og veita bæjarbúum á sama tíma góða þjónustu.

„Hér hafa allir snúið bökum saman við að ná markmiðum okkar um viðsnúning í rekstri og skuldamálum. Það verkefni er langhlaup, við erum á góðri leið og lítum björtum augum til framtíðarinnar“, segir Ólafur Þór Ólafsson forseti bæjarstjórnar.

Rekstrarniðurstaða A og B hluta fyrir afskriftir, fjármagnsliði og óreglulega liði var jákvæð um 238 mkr. en neikvæð um 17 mkr. að teknu tilliti til framangreindra liða. Niðurstaðan er  40 mkr. betri en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Heildartekjur ársins námu 1.716 mkr., rekstrargjöld námu 1.478 mkr.

Handbært fé frá rekstri nam 196 mkr. Fjárfestingar námu 66 mkr. en árin á undan var litlu fé varið til fjárfestinga og nýframkvæmda. Framlegð ársins var 14% og veltufé frá rekstri nam 245 mkr.

Afborganir langtímalána, vaxta og verðbóta námu 252 mkr. Lífeyrisskuldbindingar hækkuðu um 71 mkr. eða 40 mkr. umfram það sem áætlun gerði ráð fyrir.

Skuldaviðmið í árslok nam 188% fyrir A hluta bæjarsjóðs og B hluta stofnanir, en 133% þegar eingöngu er litið til A hluta bæjarsjóðs. Skuldahlutfallið hefur lækkað verulega ár frá ári en það var 201% fyrir A og B hluta árið 2014 og 227% árið 2013. Áætlað er að viðmiðum sveitarstjórnarlaga um skuldaviðmið og rekstrarjafnvægi verði náð árið 2019 sem er nokkru fyrr en langtímaáætlun frá 2012 gerði ráð fyrir.