Nýjast á Local Suðurnes

Samfylking tapaði miklu fylgi – “Lífið heldur áfram sama hvernig kosningar fara”

Ólafur ásamt bæjarstjóra Garðs á góðri stund.

Kosninganóttin var Samfylkingarfólki erfið, en eins og flestum ætti að vera kunnugt tapaði flokkurinn miklu fylgi og missti marga þingmenn. Flokkurinn hlaut 6,4% atkvæða í Suðurkjördæmi og hélt Oddný Harðardótti sæti sínu sem jöfnunarþingmaður í kjördæminu.

Ólafur Þór Ólafsson, bæjarfulltrúi í Sandgerði sem var í öðru sæti listans og kemur til með að vera varaþingmaður kjördæmisins á komandi kjörtímabili skrifaði stuttan pistil á Facebook-síðu sína að kosningunum loknum, þar sem hann segist gleðjast yfir því að Oddný hafi haldið sæti sínu, en sé um leið dapur yfir úrslitunum.

Ég er dapur yfir þeim slæma dómi sem Samfylkingin fékk í kosningunum í gær og er eins og margir mjög hugsandi yfir stöðu okkar sem stjórnmálaflokks. Ég ætla ekki að fara í að greina ástæður og fabúlera um framtíðina í þessu stutta innlagi nema bara að segja að það er enn verk að vinna fyrir okkur íslenska jafnaðarmenn.

Þrátt fyrir slæmri stöðu flokksins finn ég fyrir gleði yfir því að tekist hafi að tryggja sæti Oddnýjar Harðardóttur á þingi. Skoðanakönnun eftir skoðanakönnun sýndi að hún myndi ekki ná inn en þrátt fyrir það hafðist að ná rödd jafnaðarfólks í Suðurkjördæmi inn í steinhúsið góða við Austurvöll. Segir í pistli Ólafs.

Þá segist frambjóðandinn vera fullur tilhlökkunar yfir því að lífið komist í réttar skorður á ný, kosningabaráttan er tímafrek að sögn frambjóðandans og lítill tími gefst til að sinna annari vinnu og fjölskyldu.

Síðast en ekki síst finn ég fyrir tilhlökkun að komast aftur í daglega rútinu. Kosningabarátta yfirtekur nefnilega líf manns þegar maður er í henni miðri. Síðustu tvær vikur er ég búinn að vera meira og minna fjarri börnunum mínum, ekki náð að sinna vinnunni minni sem kennari, borðað óreglulega, nánast ekkert náð að hreyfa mig og varla náð að setja fötin mín í þvottavél. Ég mun því mæta með bros á vör í vinnuna mína í fyrramálið. Lifið heldur nefnilega áfram sama hvernig kosningar fara, kaffið verður jafn gott á morgnana og faðmlagið jafn yndislegt á kvöldin.