sudurnes.net
Samband barna við foreldra og fjölskyldu hefur aukist - Local Sudurnes
Ekkert barn í 7. bekk grunnskólanna í Reykjanesbæ hefur tekið þátt í að stríða eða meiða einn krakka né taka þátt í að skilja útundan. Þetta sýnir rannsókn meðal nemenda í 5. 6. og 7. bekkjum grunnskólanna í Reykjanesbæ sem framkvæmd var af Rannsóknum og greiningu í febrúar sl. 449 börn tóku þátt eða 73% af heildarfjölda nemenda. Sérfræðingar fyrirtækisins kynntu niðurstöður rannsóknarinnar nýverið fyrir Samtakahópnum, þverfaglegum forvarnarhópi á vegum Reykjanesbæjar og munu þær kynntar foreldrum að loknu sumarleyfi. Frá árinu 1992 hefur Mennta- og menningarmálaráðuneytið stuðlað að því að gerðar hafa verið faglegar, samanburðarhæfar rannsóknir á högum, líðan og aðstæðum barna og ungmenna hér á landi undir heitinu Ungt fólk. Það er talið hverri þjóð mikilvægt að eiga slíkar langtímarannsóknir um líðan, viðhorf og aðstæður barna og ungmenna á hverjum tíma og hefur Ísland verið í fararbroddi þróunar á rannsóknum af þessu tagi mörg undanfarin ár. Æskulýðsrannsóknirnar Ungt fólk eru gerðar meðal nemenda í 5. til 10. bekk í öllum grunnskólum og í öllum árgöngum framhaldsskóla landsins með reglulegu millibili. Þær þykja einstæðar á heimsvísu m.a. sökum þess að þær ná til allra ungmenna í landinu. Samband við foreldra og fjölskyldu hefur aukist Margt annað áhugavert má finna í niðurstöðuskýrslunni [...]