Nýjast á Local Suðurnes

Sala varnarliðseigna – “Hefði haft bein áhrif á fasteignamarkaðinn að bíða eftir betra verði”

Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrverandi stjórnaformaður Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, telur að ákvörðun um að bíða með sölu fasteignanna í von um að fá hærra verð síðar, hefði haft bein áhrif, til hins verra, á fasteignamarkaðinn á Suðurnesjum.

Þetta kemur fram í ávarpi stjórnarformannsins í ársskýrslu Kadeco. Kadeco seldi fasteignafélaginu Íslenskum fasteignum um 100 þúsund fermetra af íbúðarhúsnæði á rétt rúmar 50.000 krónur fermetrann í lok síðasta árs. Á þeim tíma var fermetraverð á Suðurnesjasvæðinu nýskriðið yfir 200.000 krónur.

“Með því að koma þessum fasteignum á markað verður verðmyndun á honum skýrari og með því er komið í veg fyrir að falskur framboðsskortur myndist. Hefði félagið tekið ákvörðun um að bíða með sölu fasteignanna í von um að fá hærra verð síðar hefðu stjórnendur þess ekki aðeins verið að vinna gegn því markmiði sem sett var við stofnun félagsins, þ.e. að koma eignunum sem fyrst í borgaralega nýtingu, heldur hefði það, í ljósi umfangs, haft bein áhrif á fasteignamarkaðinn.” Segir Sigurður Kári í ávarpi sínu í ársskýrslu Kadeco.

Hættu við að leigja íbúðirnar – Fjöldi fólks í vandræðum

Leigufélagið Ásbrú íbúðir ehf., sem er í eigu Íslenskra fasteigna ehf, hætti fljótlega eftir kaupin við að setja umræddar íbúðir í leigu og fengu tilvonandi leigjendur upphringingu frá fyrirtækinu þess efnis, með afar stuttum fyrirvara, en með símtalinu var fólki tilkynnt að félagið hafi ákveðið að selja íbúðirnar á almennum markaði, frekar en að leigja þær út. Miklar umræður spunnust um málið í lokuðum hópi íbúa á Ásbrú, þar sem fjöldi fólks greindi frá því að það myndi lenda í vandræðum vegna málsins.