Nýjast á Local Suðurnes

Rýmingaráætlun klár fyrir Grindavík

Eftir að óvissustigi var lýst yfir vegna landriss við Þorbjörn fóru viðbragðsaðilar af stað og unnu rýmingaráætlun og verkferla ef til þess kæmi að rýma þyrfti sveitarfélagið með stuttum fyrirvara. Í rýmingaráætluninni er að finna bæði tilmæli til íbúa auk korts af akleiðum úr bænum.

Þeir aðilar sem unnu áætlunina eru frá skipulagssviði Grindavíkurbæjar, Slökkviliði Grindavíkur, Lögregluembættinu, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Slysavarnardeild Landsbjargar og Björgunarsveitinni Þorbirni

Í næstu viku verður áætlunin borin í hús og er fólk hvatt til að geyma rýmingaráætlunina á öruggum stað. Vegna óvissustigs er brýnt að íbúar Grindavíkur kynni sér þær upplýsingar sem í áætluninni er að finna.

Í skipulagi almannavarna er rýming hluti af mótvægisaðgerðum til að draga úr áhrifum hættu á samfélag og íbúa þess, áður en neyðarástand á sér stað eða á meðan neyðarástand varir. Það felur í sér að íbúar flytja á öruggari stað og síðan að þeir komist öruggir heim aftur í lok neyðarástands.

Til að rýming gangi vel fyrir sig er mikilvægt að til sé áætlun um framkvæmd rýminganna. Forboði eldgoss eru jarðskjálftar sem finnast víða og órói sem kemur fram á mælum vísindastofnana. Vísindamenn upplýsa almannavarnir um að gos sé að hefjast og þá virkja almannavarnir skipulag sitt og áætlanir. Ríkislögreglustjóri gefur fyrirmæli um brottflutning fólks af hættusvæði.

Rýmingaráætlunina má finna í heild sinni hér. 

Rýmingaráætlunin er líka væntanleg á vefinn á pólsku og ensku.