Nýjast á Local Suðurnes

Rifja upp óhugnanlegt mál í umræðum um öryggisvistun

Mynd: Facebook- Ozzo

Félagsmálaráðuneytið leitaði á dögunum til Reykjanesbæjar eftir samstarfi um byggingu og rekstur öryggisgæslu og öryggisvistunar í Reykjanesbæ, en í ráðuneytinu er unnið er að því að finna framtíðarlausn fyrir einstaklinga sem þurfa nauðsynlega á öryggisgæslu og öryggisvistun að halda. Bæjarráð sveitarfélagsins samþykkti fyrir sitt leiti að taka þátt i verkefninu og hefur falið Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra, að vinna áfram í málinu.

Skiptar skoðanir eru um málið á meðal íbúa Reykjanesbæjar á samfélagsmiðlum, en töluverðar umræður hafa myndast á samfélagsmiðlunum, meðal annars á umræðuvettvangi bæjarbúa, Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri, en þar segir íbúi sem bjó í nágrenni við slíkt úrræði frá reynslu sinni:

“…það var ekki góð ákvörðun hjá borginni að fara inn í miðja íbúðabyggð í næsta nágrenni við skóla og leikskóla bjó sjálf í 27 ár í hverfinu og það voru allir mjög uggandi yfir þessari staðsetningu frá upphafi, vona allavega að Kjartan og félagar átti sig á að svona úrræði á ekkert erindi inn í miðja íbúðabyggð.”

Þá er á sama vettvangi bent á óhugnanlegt mál sem upp kom á slíku heimili í höfuðborgiunni. Í því tilfelli var karlmaður dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir þrjár grófar líkamsárásir, meðal annars gegn kærustu sinni en einnig forstöðumanni þjónustukjarna í Rangaráseli sem staðsettur er í miðju íbúðahverfi. Starfsfólk í Rangárseli var í kjölfarið sent á námskeið í sjálfsvörn.

Á síðasta ári samþykkti Reykjavíkurborg svipað úrræði í Hagaseli, í Breiðholti, íbúar á því svæði voru ósáttir við ákvörðunina og tæplega 800 manns rituðu undir mótmælalista vegna íbúðakjarnans. Þar komu meðal annars fram áhyggjur um að í íbúðakjarnanum yrði fólk með geðfötlun og virkan fíknivanda. Í athugasemdum við deiliskipulagið var jafnframt bent á að flest félagsleg úrræði væru í Breiðholti, öryggi barna væri ógnað og að það væri nálægt öryggisvistun við Rangársel.

Bæjarráð hefur þegar samþykkt að taka þátt í verkefninu, en fundargerð bæjarráðs og þar með þetta viðkvæma mál verður til umræðu á bæjarstjórnarfundi klukkan 17 í dag, en horfa má á fundi bæjarstjórnar hér.