Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær setur afarkosti í samningaviðræðum við lánadrottna

Reykjanesbær hefur gefið lánardrottnum Eignarhaldsfélagsins Fasteignar (EFF), frest þar til á morgun, 5. febrúar, til að ganga að tillögu bæjarins um afskriftir skulda. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.

Heimildir Fréttablaðsins herma að sáttatillaga bæjarins feli í sér að 6,8 milljarðar verði afskrifaðir af skuldum Reykjanesbæjar en þar mun stærsti hlutinn vera af skuldum EFF. Lánardrottnar bæjarins hafa hins vegar ekki verið tilbúnir að afskrifa meira en 5,1 milljarð af lánum til bæjarins.

Athyglisvert: Hér er hægt að spara þúsundir króna

Þá mun vera tekið fram í bréfinu að verði ekki gengið að kröfum Reykjanesbæjar sé bænum nauðugur einn kostur að óska eftir því við innanríkisráðuneytið að það skipi fjárhagsstjórn yfir sveitarfélaginu sem tæki yfir stjórn fjármála Reykjanesbæjar.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði við Fréttablaðið í gær engin viðbrögð hafa borist við bréfinu enda fresturinn ekki runninn út.

Þá kemur fram í fundargerð að samþykkt hafi verið að senda bréfið með atkvæðum þriggja fulltrúa meirihlutans, gegn atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.