Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær samþykkir fjárveitingu vegna hringtorga á Reykjanesbraut

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt fjárveitingu allt að kr. 33.000.000,- til framkvæmda við tvö hringtorg við Reykjanesbraut, annars vegar er um að ræða gatnamótin Aðalgata/Reykjanesbraut og hins vegar Þjóðbraut/Reykjanesbraut. Verkið verður væntanlega boðið út í samvinnu við Vegagerðina í vor.

Samgönguáætlun var samþykkt á Alþingi í lok síðasta árs og sagði Svanur G. Bjarnason svæðisstjóri Suðursvæðis hjá Vegagerðinni í samtali við Suðurnes.net undir lok síðasta árs að Vegagerðin hafi ekki fengið fregnir af því hvaða framkvæmdir mun verða farið í, en að þrátt fyrir það muni Vegagerðin hefja hönnun á tveimur hringtorgum við Reykjanesbraut.

“Við munum klára verkhönnun og gerð útboðsgagna með það í huga að hægt verði að bjóða út framkvæmdir snemma í vor en það verður bara að skýrast eftir áramótin hvaða framkvæmdir verða ofan á.” Sagði Svanur.