Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær lokar þjónustu fyrir börn sem njóta ekki stuðnings heima við

Reykjanesbær hefur tilkynnt foreldrum barna sem nýta sér þjónustu Baklands að þjónustunni verði hætt um áramót. Bakland er úrræði sem Barnaverndarnefnd Reykjanesbæjar hefur boðið upp á fyrir börn sem fá ekki þann stuðning sem þau þarfnast heima hjá sér til dæmis við heimanám, auk þess sem Baklandi var ætlað að þjálfa þau í athöfnum daglegs lífs og efla félagsfærni þeirra og félagsleg tengsl.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, staðfesti í umræðum um málið í Facebook-hópnum “Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri” að Baklandi yrði lokað um áramót, en taldi vettvanginn ekki vera réttan til að ræða hvers vegna Baklandi yrði lokað eða hvaða úrræði yrðu í boði í stað Baklands.

“Ég get staðfest að Baklandinu verður lokað en börnum, sem þurfa aðstoð við heimanám, sinnt með öðrum hætti.” Segir Kjartan Már. “…ég tel ekki rétt að opna fyrir útskýringar eða svör við spurningum um einstaka liði frumvarpsins hér á mínum persónulega FB reikningi.”

Í umræðunum kemur fram að foreldrar sem nýta þessa þjónustu séu ósáttir við hvernig staðið sé að þessum málum, tilkynnt hafi verið um lokun þjónustunnar með símtali frá starfsfólki Reykjanesbæjar, en að foreldrum hafi ekki verið kynnt hvaða úrræði standi til boða eftir að Baklandi verður lokað.

Í framkvæmdaráætlun Barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar, sem gildir fyrir árin 2015 – 2018 kemur fram að úrræðið hafi verið misvel nýtt og að mikilvægt sé að kortleggja þörfina og að sú kortlagning sé á ábyrgð Velferðarsviðs sveitarfélagsins.