Nýjast á Local Suðurnes

Rekstur Keilis þungur – Reynt að tryggja rekstrargrundvöllinn með sölu á húsnæði

Unnið er að því að tryggja rekstur háskólans á Ásbrú, Keilis, og er möguleg sala á 40% hlut í húsnæði skólans til sveitarfélaganna á Suðurnesjum liður í þeirri vinnu. Aldrei hafa fleiri nemendur stundað nám við skólann, en yfir eitt þúsund nemendur voru skráðir til náms undir lok árs 2019.

Stjórnendur skólans lögðu fram erindi við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (S.S.S.) um miðjan desember síðastliðinn þar sem óskað var eftir viðræðum um kaup sveitarfélanna á Suðurnesjum á 40% hlut í húsnæði skólans. Stjórn S.S.S. gat ekki orðið við erindinu þar sem hún hefur ekki heimild til að skuldbinda aðildarsveitarfélögin fjárhagslega án samþykkis þeirra. Stjórnin lagði því til að bæjarráð allra aðildarsveitarfélaga myndu funda með framkvæmdastjóra Keilis til að fara yfir erindið. Sú vinna er í gangi um þessar mundir og hafa fulltrúar sveitarfélaganna fundað með framkvæmdastjóra og fjármálastjóra Keilis undanfarnar vikur.

Kjartan Már Kjartansson, formaður stjórnar Keilis, staðfesti í svari við fyrirspurn Suðurnes.net að unnið væri að því að tryggja rekstrargrundvöll skólans og að slík vinna hafi verið í gangi frá stofnun hans með hléum. Hvorki Kjartan Már, né framkvæmdastjóri Keilis, Jóhann Friðrik Friðriksson, svöruðu spurningum um hversu mikla fjármuni sala á húsnæðinu myndi tryggja í rekstur skólans, né hversu lengi slík ráðstöfun myndi duga skólanum til áframhaldandi reksturs.