Nýjast á Local Suðurnes

Ragnheiður lætur af störfum hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eftir 53 ár

Ragnheiður Skúladóttur lét af störfum hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar við skólaslit Tónlistarskólans þann 26. maí síðastliðinn eftir 53 ár í starfi sem píanókennari. Þrátt fyrir að hafa náð eftirlaunaaldi naut skólinn áfram krafta Ragnheiðar til auðgunar fyrir nemendur og tónlistarlíf bæjarins.

Ragnheiður var aðeins 20 ára þegar hún hóf störf hjá Tónlistarskóla Keflavíkur sem síðan rann inn í Tónlistarskóla Reykjanesbæ árið 1999. Eitt af því sem Haraldur Árni Haraldsson skólastjóri Tónlistarskólans afhenti Ragnheiði í gær var hvítbók með eftirmælum og minningum nemenda og samstarfsmanna í gegnum tíðina, sem allir báru Ragnheiði vel söguna.

Haraldur hafði þetta um Ragnheiði að segja við kveðjuathöfnina:

„Þótt Ragnheiður sé orðin 73 ára og búin að kenna þetta lengi, þá er hún eitt af þessum fáu dæmum um kennara með mjög langan starfsaldur, sem er samt langt frá því að vera útbrunninn.

Hún er enn að pæla í kennsluefni, kennsluaðferðum, karakter nemendanna og nálgunina við þá í kennslunni, vinna í samleiksverkefnum með nemendum sínum, undibúa nemendur af kappi fyrir hina og þessa viðburði innan skólans sem utan, og svona get ég lengi talið.

Ragnheiði verður seint fullþakkað framlag hennar til tónlistarmenntunar og -menningar í bænum okkar og það verður svo sannarlega mikill sjónarsviptir að henni, núna þegar hún hverfur frá störfum.“