Nýjast á Local Suðurnes

Ræða launahækkanir sviðsstjóra á þriðjudag – Ólíklegt að hækkanir verði dregnar til baka

Ólíklegt er að launahækkanir sviðsstjóra hjá Reykjanesbæ verði dregnar til baka en hækkanirnar sem nema 122.000 krónum á mánuði til sex sviðsstjóra sveitarfélagsins verða ræddar á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag. Eftir hækkun verða laun sviðsstjóra um ein og hálf milljón króna á mánuði, sem að sögn bæjarstjóra, Kjartans Más Kjartanssonar, eru þau laun sem bjóðast fyrir sömu stöður annarsstaðar á landinu.

Hækkanirnar, sem koma til með að kosta sveitarfélagið um níu milljónir króna á ári, hafa verið til umræðu í Facebook-hópi íbúa í Reykjanesbæ, Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri, en á þeim vettvangi segja þeir Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi Beinnar leiðar og Friðjón Einarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar að málið verði rætt í bæjarstjórn á þriðjudag, en þá fer fram lokaumræða um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

Guðbrandur sagði í stuttu spjalli við Suðurnes.net að ólíklegt væri að hækkanirnar yrðu dregnar til baka, sérstaklega í ljósi þess að ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við þessa tilhögun við fyrri umræður.