Nýjast á Local Suðurnes

Óvíst hversu miklar skemmdir urðu á verksmiðju United Silicon

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Talsverður reykur gaus upp þegar starfsmenn United Silicon unnu við töppun og útsteypingu kísilmálms síðastliðna nótt og yfirfylltist deigla með þeim afleiðingum að bráðinn málmur lenti á gólfi verksmiðjunnar. Þegar heitur málmurinn lenti á gólfi verksmiðunnar gaus reykurinn upp í verksmiðjubyggingunni.

Starfsmenn brugðust hárrétt við, slökktu á ofni verksmiðjunnar, rýmdu verksmiðjubygginguna og óskuðu aðstoðar slökkviliðs. Ekki kom til aðstoðar slökkviliðs því starfsmenn náðu sjálfir tökum á ástandinu og ekki var um eld að ræða heldur að slöngur og rafmagnsbúnaður hafði bráðnað af völdum hita frá málminum. Menn frá slökkviliði og lögreglu voru á staðnum þar til ástand var tryggt.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir  að allir starfsmenn hafi brugðist hárrétt við aðstæðum og enginn þeirra meiddist. Þeir eiga þakkir skildar svo og slökkvilið og lögregla sem brugðust fljótt við og aðstoðuðu starfsmenn á vettvangi.

Skemmdir hafa ekki verið metnar ennþá og því ekki hægt að segja til um hversu miklar þær eru.