Nýjast á Local Suðurnes

Óska eftir upplýsingum um stolinn tjaldvagn – Fannst gjöreyðilagður við Hvaleyrarvatn

Sædís Anna Jónsdóttir, íbúi í Reykjanesbæ auglýsti fyrir stuttu eftir tjaldvagninum sínum sem var stolið frá Valhallarbraut 1222 á Ásbrú. Talið er að vagninum hafi verið stolið í kringum 20. júlí síðastliðinn. Vagninn fannst á dögunum, gjöreyðilagður við Hvaleyrarvatn og að sögn Sædísar Önnu virðist sem öllu sem hægt hafi verið að nota í varahluti hafi verið stolið úr vagninum.

Tjaldvagninn var ótryggður og því er um mikið tjón að ræða.

“Ég auglýsti fyrir stuttu eftir tjaldvagninum mínum sem hvarf. Hann fannst á síðustu dögum gjöreyðilagður. Búið að taka allt úr honum sem hægt er að nýta í varahluti og skilinn eftir í henglum við Hvaleyrarvatn.

Hann var því miður ekki tryggður með ferðavagnatryggingu og því fæst vagninn ekkert bættur. Er EINHVER sem lumar á einhverjum upplýsingum? Hann var að öllum líkindum tekinn 20. júlí fyrir utan Valhallarbraut 1222.” Segir Sædís Anna á Facebook.

Þá segir Sædís Anna að tjónið sé sérstaklega tilfinningalegt þar sem fjölskyldan hafi verið búinn að leggja mikla vinnu í vagninn.

“Þetta er ömurlegt tjón fyrir okkur, sérstaklega tilfinningalegt þar sem við höfðum haft fyrir því að kaupa allskonar dót í vagninn og uppfæra hann og gera hann að okkar.”