Nýjast á Local Suðurnes

Opna nýja ÓB stöð við Aðalgötu – “Þörfin aukist fyrir nýja stöð í Reykjanesbæ”

Mynd: Olís - Jökull og Auður Ingvarsbörn afhentu Steinari Sigtryggssyni, útibússtjóra Olís á Suðurnesjum, lykil sem Auður perlaði í tilefni opnunar ÓB stöðvarinnar. Þau sjást hér ásamt Jóni Ólafi Halldórssyni, forstjóra Olís.

Olíuverzlun Íslands opnaði í dag nýja ÓB stöð við Aðalgötu 62 í Reykjanesbæ við skemmtilega athöfn. Jökull og Auður Ingvarsbörn afhentu Steinari Sigtryggssyni, útibússtjóra Olís á Suðurnesjum, lykil sem Auður perlaði í tilefni opnunar ÓB stöðvarinnar. Nýja stöðin er sjálfsafgreiðslustöð sem býður upp á gott og einfalt aðgengi að eldsneytissjálfsölum.

,,Það er sérlega ánægjulegt að opna þessa nýju og flottu ÓB stöð í hjarta Reykjanesbæjar á 90 ára afmæli Olíuverzlunar Íslands. Með auknum straumi ferðamanna til landsins hefur þörfin aukist fyrir nýja stöð í Reykjanesbæ. Við erum með opnun þessarar stöðvar að auka mjög þjónustu við ferðamenn, sem margir aka um á bílaleigubílum, en ekki síður við íbúa á svæðinu og alla þá heimamenn sem starfa við ferðaþjónustu á Keflavíkursvæðinu og þá sérstaklega í Leifsstöð.

Markmiðið ÓB er að fjölga valkostum í eldsneytissölu á Íslandi en jafnframt að koma til móts við óskir viðskiptavina sem gjarnan vilja dæla sjálfir gegn lægra verði. Við leggjum áherslu á að stöðvarnar séu bjartar og snyrtilegar, að aðgengi að þeim sé gott og sjálfsalar einfaldir í notkun,” segir Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Fyrsta sjálfsafgreiðslustöð ÓB var opnuð við Fjarðarkaup í Hafnarfirði árið 1996. Með nýju stöðinni á Aðalgötu er fjöldi ÓB stöðva nú 37 talsins nú víðs vegar um landið.