Nýjast á Local Suðurnes

Opið fyrir umsóknir um sölukofa og viðburði í Aðventugarðinum

Undirbúningur fyrir opnun Aðventugarðsins er nú kominn á gott skrið og er stefnt að svipuðu fyrirkomulagi og í fyrra en nú stendur til að opið verði í sölukofum bæði laugardaga og sunnudaga í desember svo og á Þorláksmessu.

Í þessu verkefni, eins og svo mörgum öðrum, er það þátttaka íbúa sem skiptir sköpum. Við þurfum fólk til að selja varning í sölukofunum og við þurfum fólk til að standa fyrir viðburðum og dagskrá í Aðventugarðinum. Við hvetjum því alla sem vettlingi geta valdið til þátttöku í þessu bráðskemmtilega verkefni, segir í tilkynningu á vef Reykjanesbæjar.

Opnað hefur fyrir umsóknir um sölukofa en þeir eru lánaðir endurgjaldslaust til söluaðila.

Einnig hefur verið opnað fyrir umsóknir fyrir þá sem vilja standa fyrir viðburðum, dagskrá eða uppákomum í Aðventugarðinum og því eru allir sem luma á skemmtilegum hugmyndum hvattir til að senda inn umsókn. Greitt verður fyrir slík verkefni en greiðslur ráðast af umfangi og eðli verkefnanna.

Umsóknarfrestur er til 14. nóvember og eru umsóknarformin aðgengileg á vef Reykjanesbæjar. Allar nánari upplýsingar um Aðventugarðinn eru veittar af menningarfulltrúa Reykjanesbæjar í gegnum netfangið sulan@rnb.is eða í síma 421-6700.