Nýjast á Local Suðurnes

Ófríða stúlkan til sýnis – Var skilað eftir að hafa verið 73 ár í láni

Bókin Ófríða stúlkan, eftir austuríska höfundinn Anne-Marie Selinko, er nú til sýnis í Bókasafni Reykjanesbæjar, bókinni sem er lýst sem ,,Nútíma skáldsögu frá Vínarborg”, var nýlega skilað á bókasafnið eftir að hafa verið í útláni í heil 73 ár. Bókin fór í útlán árið 1943 og þá ekki frá Bókasafni Reykjanesbæjar, heldur Lestarfjelagi Keflavíkurhrepps, segir á heimasíðu bókasafnsins.

Bókin fannst í flutningum fyrir stuttu og hefur varðveist nokkuð vel í þann tíma sem hún var í útláni, en hún er nú til sýnis í Bókasafni Reykjanesbæjar og vill starfsfólk safnsins minna fólk góðfúslega á að skila bókum á tilsettum tíma eða þá óska eftir framlengingu á láninu – Því eins og segir á heimasíðu safnsins er fátt leiðinlegra en að fá senda til sín rukkun. Ekki fylgir þó sögunni hve há sekt er fyrir að skila bók áratugum of seint.