Nýjast á Local Suðurnes

Öflug nágrannavarsla – Myndaður við að snuðra í kringum hús og kíkja inn í bíla

Ungur karlmaður á reiðhjóli var í morgun myndaður af árvökulum íbúa við götu í Dalshverfi í Innri-Njarðvík þar sem hann var að snuðra í kringum hús og kíkja inn í bíla í hverfinu. Myndir af manninum voru birtar í lokuðum hópi íbúa hverfisins á Facebook og hefur myndbirtingin vakið talsverð viðbrögð.

Í umræðum um málið kemur fram að umræddur maður hafi haft samband við þann sem birti myndirnar og tjáð viðkomandi hann væri að leita að möðkum fyrir veiðiferð. Sitt sýndist einnig hverjum um myndbirtinguna, en flestir fögnuðu henni á meða aðrir töldu varhugavert að birta slíkar myndir á samfélagsmiðlum.

 “Frábært að vera vakandi um hvað er að gerast í kringum okkur en pössum okkur að dæma ekki eftir þjóðerni,” sagði einn þeirra sem tjáði sig um myndbirtinguna. 

“Við skulum vera vakandi yfir eignum okkar og annarra og nágrannavarsla er af hinu góða. Það hefur sýnt sig, því miður undanfarið að óprúttnir aðilar hafa verið hér á ferðinni og stolið ýmsum hlutum. Hins vegar verðum við að passa okkur að leiðast ekki út í einhvern múgæsing, jarðsetja ekki og úthúða fólki sem staldar við, nálægt húsinu okkar. Það er vont að láta saka mann um eitthvað sem maður hefur ekki gert – Jafnvel búið að birta myndir og nafngreina – Hugsum um þetta áður en við gerum storm í vatnsglasi.” Segir einnig í umræðum á síðunni.