Nýjast á Local Suðurnes

Oddný býður sig fram til formanns – Vill ókeypis heilbrigðisþjónustu

Oddný Harðardóttir hefur tilkynnt formlega um framboð sitt til formanns Samfylkingarinnar,  hún birti tölvupóst á Facebook síðu sinni sem hún sendi til félaga sinna í Samfylkingunni í morgun.

Oddný segist í tilkynningu sinni, sem er að finna í heild sinni hér fyrir neðan, meðal annars vilja vinna af krafti að því að heilbrigðisþjónusta verði ókeypis.

Kæru félagar
Ég vil leggja mig alla fram við að bæta íslenskt samfélag. Þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér til formanns Samfylkingarinnar.

Verkefni okkar er að styrkja stöðu ungs fólks, barnafjölskyldna, aldraðra og öryrkja. Ójöfnuð sem birtist í óréttlátri skattastefnu og aukinni gjaldtöku í heilbrigðis- og menntakerfinu þarf að stöðva strax. Til þess þarf samstillt átak jafnaðarmanna og verkalýðshreyfingarinnar.

Ég vil vinna af krafti að því að heilbrigðisþjónusta verði ókeypis, að sett verði ný stjórnarskrá, að arðurinn af auðlindum skili sér til okkar allra og lífvænlegu umhverfi til komandi kynslóða. Til þess þarf sterka Samfylkingu.

Þegar baráttumálin snúast um jafnrétti og réttlæti er auðvelt að stækka hópinn og fá hugsjónaeldinn til að brenna í hjörtum jafnaðarmanna.

Ég óska eftir stuðningi þínum og samstarfi.
Með baráttukveðjum,
Oddný G. Harðardóttir

Oddný var bæjarstjóri í Garði frá árinu 2006 en hefur setið á þingi síðan árið 2009 og var fjármála- og efnahagsráðherra árin 2011 til 2012.