Nýjast á Local Suðurnes

Nýtt hverfi fær nafnið Hlíðarhverfi

Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar samþykkti í gær tillögu skipulagsnefndar um að nýtt hverfi norðan Hópsbrautar fengi nafnið Hlíðarhverfi. Fjölmargar tillögur bárust um nafn á hverfið og sendu langflestir nafnið Brekkuhverfi með vísan í brekkuna sem hverfið kemur til með að standa að hluta í. Aðrar tillögur sem sendar voru inn voru t.d. Fellahverfi, Heiðarhverfi, Víkurhverfi, Melahverfi, Hólahverfi, Brekkubyggð og Hópsheiði. Þetta er þó aðeins hluti þeirra tilnefninga sem bárust. 

Einnig bárust fjölmargar góðar tillögur að götuheitum sem skipulagsnefnd mun hafa til skoðunar þegar nær dregur gatnagerðinni. Bókun skipulagsnefndar og bæjarstjórnar varðandi heiti hverfisins má sjá hér fyrir neðan. 

1.     Deiliskipulag – Norðan Hópsbrautar – 1901081
    Farið yfir tillögur að nöfnum á hverfi og götum frá íbúum ásamt áfangaskiptingu á gatnagerð í hverfinu. 

Bókun: Nefndin telur að gatangerðagjöld eigi að standa að mestu leyti undir kostnaði við gatnaframkvæmdir. Nefndin leggur til breikkun á gangstéttum/stígum við stofngötur til að aðgreina gangandi frá hjólandi umferð. Nefndin leggur til að gatnagerðinni verði skipt í 2 áfanga. 

Nefndin samþykkir að í greinagerð deiliskipulagsins verði settir skilmálar um fullnaðarfrágang á lóð og innkeyrslu. Nefndin leggur til að hverfið verði nefnt Hlíðarhverfi með 11 götuheitum. 

Ákvörðun um nafn á hverfinu er vísað til bæjarstórnar.

1. Deiliskipulag – Norðan Hópsbrautar – 1901081
Til máls tóku: Sigurður Óli, Guðmundur, Hallfríður og Páll Valur. Skipulagsnefnd lagði til, á 77. fundi sínum, að nýtt hverfi sem verið er að deiliskipuleggja norðan við Hópsbraut fái nafnið Hlíðarhverfi. Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að nafn hverfisins verði Hlíðarhverfi.