Nýjast á Local Suðurnes

Nýsamþykkt aðalskipulag stöðvar frekari uppbyggingu stóriðju

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í gær nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Skipulagið sem gildir til ársins 2030 stöðvar frekari uppbyggingu á stóriðju í sveitarfélaginu. Þá verður samkvæmt aðalskipulaginu heimild til uppbyggingu á íbúðum aukin um 280 íbúðir frá áður auglýstri tillögu.

Í bókun bæjarstjórnar, sem lögð var fram á fundinum kemur meðal annars fram að dregið verði úr uppbygingarheimildum á á svæðum sem varða verslun og þjónustu, auk athafnasvæða áskipulagstímabilinu. Fram kom í máli Friðjóns Einarssonar formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar á fundi með Umhverfis- og samgöngnefnd Alþingis í morgun að með nýsamþykktu aðalskipulagi sé uppbygging stóriðju í Reykjanesbæ stöðvuð.

Bókun bæjarstjórnar í heild sinni:

„Í Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2015-2030 eru settar fram forsendur, leiðarljós, stefnur um framtíðaruppbyggingu í sveitarfélaginu, sem byggja á breyttum forsendum um íbúaþróun. Aðalskipulagið verður stefnumarkandi heildarsýn um þróun sveitarfélagsins til 2030. Skipulaginu er ætlað að stuðla að hagkvæmri og skynsamlegri nýtingu lands, móta stefnu um þróun byggðar og landnotkunar. Með staðfestingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2015-2030 fellur úr gildi Aðalskipulag Reykjanesbæjar 2008-2024. Skipulagsgögn eru: Greinargerð, þéttbýlisuppdráttur, sveitarfélagsuppdráttur og umhverfisskýrsla.
Aðalskipulagið hefur verið unnið skv. 30. og 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hlotið afgreiðslu skv. 32. gr. skipulagslaga og 9. gr. laga nr. 106/2005 um umhverfismat áætlana. Skipulagstillaga var auglýst 15. desember 2016 til 26. janúar 2017. Alls bárust 15 umsagnir og athugasemdir við auglýsta skipulagstillögu. Bæjarstjórn fellst á afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á framkomnum athugasemdum. Brugðist hefur verið við ábendingum.

Við afgreiðslu Skipulagsstofnunar komu m.a. fram ábendingar varðandi umfang atvinnuuppbyggingar. Ákveðið er að draga frekar úr uppbyggingarheimildum á skipulagstímabilinu, sérstaklega hvað varðar svæði fyrir verslun og þjónustu, og athafnasvæði. Byggingarheimildir færast því yfir á tímabil eftir árið 2030. Auk þess hefur áfangaskipting verið uppfærð.

Vegna ört vaxandi íbúafjölda hefur verið ákveðið að rýmka fyrir heimildum fyrir uppbyggingu íbúða og hefur íbúðum fjölgað um 280 frá auglýstri tillögu, til að mæta mögulegri framtíðarþróun.

Umhverfisskýrsla hefur verið uppfærð í samræmi við ábendingar Skipulagsstofnunar. Gerð er skýrari grein fyrir samanburði stefnukosta við mótun aðalskipulagsins, auk þess að gera betur grein fyrir mögulegum umhverfisáhrifum ákveðinnar landnotkunar.”