sudurnes.net
Nýgengi lungnakrabbameins hærra í Reykjanesbæ en á landinu öllu - Local Sudurnes
Í tengslum við nýlega umræðu um mengun hafa Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins borist fyrirspurnir varðandi nýgengi krabbameina í Reykjanesbæ og fer hér á eftir úttekt á því. Svar Krabbameinsskrár við fyrirspurn Suðurnes.net má finna hér fyrir neðan, en það var einnig sent á aðra fjölmiðla: Hjá Krabbameinsskránni miðast búseta við greiningardag og notast er við sveitarfélagskóða, en sveitarfélagið Reykjanesbær var stofnað í júní 1994. Vegna smæðar þýðisins var ákveðið að miða við 20 ára tímabil, en svo stórt tímabil gefur meiri stöðugleika og betri möguleika á að nema marktækan mun, ef hann er til staðar. Varð árabilið 1997-2016 fyrir valinu. Niðurstöður Samtals greindust rúmlega 1000 krabbamein í Reykjanesbæ á þessu 20 ára tímabili. Dreifing krabbameinanna var svipuð og á landsvísu, þ.e. hæst nýgengi krabbameina var í brjóstum kvenna og blöðruhálskirtli karla, þar á eftir í lungum og ristli hjá báðum kynjum. Hjá körlum fylgdu síðan krabbamein í þvagvegum og nýrum en hjá konunum krabbamein í legbol og leghálsi og síðan heilaæxli. Önnur mein sem greindust í hinum ýmsu líffærum voru fátíðari. Marktækur munur fannst fyrir lungnakrabbamein og krabbamein í leghálsi á tímabilinu 2007-2016. Nýgengi lungnakrabbameins var hærra í Reykjanesbæ en á landinu öllu. Nýgengið hjá konum í Reykjanesbæ var 54 á 100.000 íbúa [...]