sudurnes.net
Ný verðskrá fyrir hópbifreiðastæði við FLE - Isavia skylt að taka gjald fyrir veitta þjónustu - Local Sudurnes
Þann 5. nóvember næstkomandi tekur gildi ný verðskrá fyrir notkun á ytri hópbifreiðastæði við Keflavíkurflugvöll. Nýrri verðlagningu er ætlað að verja samkeppnislega hagsmuni og gæta jafnræðis milli samgöngumáta sem nota innviði Isavia í tengslum við flutning farþega til og frá flugstöðinni. Í tilkynningu frá Isavia segir að Samkeppniseftirlitið og Áfrýjunarnefnd samkeppnismála telji Isavia skylt að taka gjald fyrir veitta þjónustu og það raski samkeppni að taka ekkert gjald fyrir hópbifreiðastæðin. Ekkert gjald er nú greitt á ytri stæðum, samkvæmt bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá í júlí síðastliðnum, en gjald er tekið af hópbifreiðum á nærstæðum við flugstöðina. Isavia telur óhjákvæmilegt annað en að fá úr því skorið hvernig haga eigi kostnaðar- og gjaldagrunni vegna gjaldtöku á flugvellinum en mál Isavia og Samkeppniseftirlitsins snertir meðal annars tilhögun á fjármögnun á uppbyggingu á innviðum flugvallarins, þjónustu við flugfarþega og samkeppnisstöðu Keflavíkurflugvallar við aðra alþjóðlega flugvelli. Ný verðskrá gerir ráð fyrir að frá 5. nóvember greiði hópbifreið, sem tekur allt að 19 farþega, 3.200 krónur fyrir hvert skipti sem farþegar eru sóttir í flugstöðina. Bifreið sem tekur 20-45 farþega greiði 7.400 krónur og bifreið sem tekur 46 farþega eða fleiri greiði 9.900 krónur. Þann 1. mars síðastliðinn hóf Isavia gjaldtöku á ytri hópbifreiðastæðum. Tilkynnt var [...]