Nýjast á Local Suðurnes

Nilfisk “haglabyssa” hélt árásarmanni frá starfsfólki skartgripaverslunar

Vefmiðillinn Vísir hafði eftir heimildum sínum í gærkvöldi að eigandi úra- og skartgripaverslunar, hvar tilraun var gerð til ráns í gær, hafi haft haglabyssu til taks í versluninni og að það hefði komið sér vel í við þær aðstæður sem upp komu. Maðurinn braut og bramlaði í versluninni, en hann var vopnaður öxi.

Heimildirnar voru þó ekki alveg réttar, en eigandi verslunarinnar útskýrir í samtali við sama miðil að hann hafi gripið til ryksugurörs, sem sé líklega rúmur metri að lengd, til að halda manninum frá, en ekki haglabyssu.

„Það var það skásta til að halda honum frá sér. Það er orðið að Nilfisk-haglabyssu,“ segir eigandinn.

Sveinbjörn Halldórsson, lögreglufulltrúi á Suðurnesjum, segir í samtali við Vísi að maðurinn sé enn í haldi lögreglu. Of snemmt sé að segja til um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald. Maðurinn sé í „viðeigandi meðferð“.