Nýjast á Local Suðurnes

Nettófrystar fullir af humri þrátt fyrir skort – Verðhækkanir vegna erfiðra veiða

Guðjón Vilhelm Sigurðsson, framkvæmdastjóri Humarsölunnar, segir að verðhækkanir á humri sem rætt hefur verið undanfarna daga séu meðal annars til komnar vegna þess að veiðar séu erfiðari nú en áður, þannig getur tekið allt að þrjá daga að fylla báta sem áður tók tæpan dag. Slíkt segir Guðjón óhjákvæmilega leiða til verðhækkana í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

Humarsalan sem hefur höfuðstöðvar í Reykjanesbæ og sér um dreifingu á Hornafjarðahumri lætur þó engan bilbug á sér finna og telur líklegt að allir fái sinn skammt af humri fyrir jólin, en fyrirtækið greindi frá því á fésbókarsíðu sinni að humar sé um þessar mundir keyrður í verslanir Nettó í tonnavís og að þar á bæ séu allir frystar fullir af góðgætinu.

Fyrirtækið hefur auk íslenskrar framleiðslu boðið upp á innfluttan danskan humar sem að sögn Guðjóns Vilhelms hentar einstaklega vel í súpur og salat.