Nýjast á Local Suðurnes

Nelson, hjúkrunarfræðingar og ferðamenn koma við sögu í föstudagspistli á fimmtudegi

Þar sem að ég er á leið út úr bænum yfir helgina þá kasta ég inn föstudagspistlinum núna, Alltaf gaman að breyta til og koma með fimmtudagspistil.

local

Árni Árnason

Þó svo að það fari vel um í Grafarvoginum með útsýnið yfir Bláfjöllin og Esjuna hérna upp á fimmtu hæð, þá heillar miðborgin mig alltaf. Gömlu virðulegu húsin og iðandi mannlífið, en svo kemur það fyrir að ég er sáttur þar sem ég er. Var að hlusta á útvarpið á leiðinni til vinnu þar sem umræðuefnið var rottugangur í 101 Reykjavík. Hundgamlar skolplagnir fullar af rottum draga aðeins úr sjarmanum að mínu mati. Ég veit bara eitt að ef ég myndi mæta rottu á gangstéttinni hjá mér þá yrði hún fljót að láta sig hverfa, ég myndi öskra mig hásann og hoppa upp í næsta tré. Spurning að borgaryfirvöld greiði mér fyrir að vera á rötlinu æpandi þetta yrði kannski góð hreinsun á rottuganginum.

Talandi um virðingu Alþingis þá fögnuðu íbúar í Flóahreppi sumri og sól með ýmsum uppákomum á dögunum. Eitt vakti athygli mína, það var bingó. Já það var búið til spjall og í hverjum reit var tölustafur og nafn þingmanna. Þá voru teknar hænur og þeim sleppt á spjaldið og beðið eftir skitu. Svo var kallað Karl Garðarsson 32 og svo koll af kolli. Ég veit ekki hversu skemmtilegt það er að hæsni sé látið skíta yfir nafnið manns. Það fylgdi ekki hvort einhver þingmaðurinn var með og spilaði bingó með sveitungunum.

Ég veit ekki alveg hvernig ágætur prestur hér í borg getur borið saman bardaga Gunnar Nelsonar við klám, en það gerði hann á facebookinu sínu. Ég er hræddur um að klerkurinn ætti að eyða út færslunni og leita á ný mið á netinu, þetta er eitthvað í grófari kantinum sem hann er að skoða eða var hann kannski bara vitna í að hvort tveggja tekur bara 3 mínútur?

Mest sjokkerandi fréttin í vikunni var sú að í himnaríki er ekki stundað kynlíf. Kannski ekki skrítið að presturinn sem ég minntist á að ofan má engan tíma missa hann hefur greinilega vitað þetta lengi. Guðmundur Kristinsson rithöfundur með meiru, er í góðum tengslum við þá sem hafa hvatt þennan heim og gengið inn í eilífðina. Ekki nóg með að það er ekkert kynlíf, þá þarf maður að ganga allt, það eru ekki bílar, en húsnæði er til staðar og einmanna sálir para sig saman – ekki öll von úti hjá manni.

Alltaf sama stuðið í Orkuveitunni, starfsmaður þar á bæ tilkynnti þjófnað á bíl og það var víst hettuklæddur maður sem gerði það. Síðar kom í ljós að bíllinn var bara færður á verkstæði og hafði verið tekin í misgripum. Þeir eru greinilega ákafir á verkstæðinu hjá OR, spurning að skilja bílinn eftir fyrir utan og láta gera við. En ég mæli með fyrst að númeraplöturnar eru ekki aðgreina bifreiðarnar að OR panti bílanna bara í misjöfnum litum. Þá er til að mynda hægt að gera við rauða á mánudögum og svo framvegis.

Ferðamenn eru víst að skilja eftir sig lífrænan áburð víða um land. Nýjasta dæmið er á Þingvöllum þar sem menn létta af sér og gera nr. 2 í skógarjaðrinum. Í Viðtali við umhverfisráðherra í fréttum kemur fram að um átján salerni er á svæðinu. Ég spyr mig hvernig á það að sleppa þegar fjöldi langferðabíla koma troðfullir á svæðið? Allir í spreng og hingað til hefur þurft að greiða salernisgjald (á að aflétta því núna.) Það eru fleiri salerni í Kringlunni en á helgasta stað þjóðarinnar. Við viljum að ferðamenn skoði stolt þjóðarinnar, viljum ekki að ferðamenn skilji eftir sig kúk, en bjóðum samt ekki upp á fullnægjandi salernisaðstöður, þetta á ekki bara við um Þingvelli. Maður spyr sig líka að því hvernig þróast þetta ef allsstaðar standa verðir með posana á lofti, það þarf að borga 500 krónur fyrir bílastæði það þarf að borga fyrir að kúka, förum við ekki að setja á líka súrefnisgjald ? „Bíddu við, varstu að anda að þér ? 500 kall núna.“

Þórunn Sveinbjarnar er gapandi hissa yfir því að lög á ríkisstarfsmenn standist lög, hún bara nær ekki upp í nefið á sér þessi elska og veit ekki sitt rjúkandi ráð. Talar um að mannréttindi séu brotin í landinu sem ekki ber að líðast. Ég spyr bara hvort hún hafi verið með andlega fjarveru annan þann tíma sem hún sat á þingi og studdi sjálf lagasetningar á verkföll. Ótrúlegt þegar fólk tekur Ragnar Reykás á þetta og spilar sig hálf heimskulega. Því miður þá hefur hún engan trúverðugleika í sínu starfi núna og ætti að hugsa sinn gang.

Hjúkrunarfræðingar felldu kjarasamninginn. Það kom engum á óvart og ætla margir hverjir að standa við uppsagnir. Heilbrigðisráðherra greindi frá því að til greina komi að skoða ráðningar á erlendum hjúkrunarfræðingum til starfa. Formaður hjúkrunarfræðinga telur það ómögulegt, það sé nú krafa um að hjúkrunarfræðingar tali íslensku. Eru allir þessir hjúkrunarfræðingar sem sótt hafa um vinnu í Noregi altalandi á norsku ? Hjúkrunarfræðingar vilja hærri laun en stórhluti vill samt sem áður láta af störfum, það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi mál þróast en að sjálfsögðu vil ég að hjúkrunarfræðingar sem og aðrir fái mannsæmandi laun, en ég bara skil ekki uppsagnirnar.