Nýjast á Local Suðurnes

Náungakærleikur í Reykjanesbæ – Fjöldi fólks hjápaði til við flutninga

Margar hendur vinna létt verk segir máltækið og sú var raunin í dag þegar fjöldi fólks mætti á heimili Kristínar Gunnarsdóttur, 64 ára íbúa Reykjanesbæjar til að aðstoða hana við búslóðaflutninga. Kristín greindist með krabbamein í mars árið 2015, í byrjun febrúar síðastliðins fékk hún svo þær fréttir að sjúkdómurinn væri ólæknanlegur.

Kristín á fáa ættingja hér á landi og fram kom í viðtali sem vefmiðillinn bleikt.is tók við hana í febrúar að hennar hinsta ósk væri að flytjast til Danmerkur, þar sem börn hennar og barnabörn búa. Vinkona Kristínar, Íbba Heiðarsdóttir, setti á fót söfnun þar sem takmarkið var að safna nógu miklum fjármunum til þess að ósk Kristínar rættist, það tókst og hófust flutningarnir í dag.

Óskað var eftir aðstoð við flutningana á Facebook-síðunni “Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri” og viðbrögðin létu ekki á sér standa, fjöldi fólks mætti á svæðið og tók til hendinni og segja skipuleggjendur að auk þeirra sem mættu á staðinn hafi fjöldi fólks haft samband og viljað mæta en tímasetningin hafi ekki hentað. Menn létu ekki þar við sitja heldu mun góður aðili úr Reykjanesbæ, sem ekki vill láta nafn síns getið, fylgja Kristínu til Danmerkur og aðstoða hana á ferðalaginu.

Kristín sagðist í spjalli við Local Suðurnes vera afar þakklát fyrir alla þá hjálp sem hún hefur fengið að undanförnu enda hafi dregið mjög af henni undanfarin misseri og þetta hefði aldrei gengið upp án þeirrar aðstoðar sem hún hefur notið.