Nýjast á Local Suðurnes

Næsta samningalota erfið og snúin – Leggja 40 milljónir í verkfallssjóð

Aðalfundur Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur var haldinn 24. apríl síðastliðinn.  Þar kom fram að tæplega 5.000 félagsmenn voru að greiða gjöld til félagsins, konur eru 52% og karlar 48%.

Breytingar urðu á stjórnarskipan í félaginu, Kristrún Jónsdóttir verkakona lét af störfum eftir áratuga stjórnarsetu.  Kristrúnu voru þökkuð vel unnin störf í þágu verkafólks, en hún sinnti störfum trúnaðarmanns í mörg ár og stóð sig þar með mikilli prýði. Henni var afhentur veglegur blómvöndur í þakklætisskyni. Nýr stjórnarmaður  er  Miroslaw Zarski og var hann boðinn sérstaklega velkominn til starfa.

Farið var yfir þróun í kjaramálum og ljóst er að næsta samningslota verður bæði erfið og snúin.  Reikningarnir hjá VSFK sýna verulega góða afkomu á árinu 2017. Samstæðureikningur sýnir tæplega hundrað og fjórtán  milljónir í plús.  Í ljósi góðrar afkomu þá ákvað fundurinn  að leggja 40 milljónir í Verkfallsjóð til undirbúnings í komandi kjarasamningum.