Nýjast á Local Suðurnes

Minningar- og styrktarsjóður Ölla gaf milljón til Hjálparstarfs kirkjunnar

Hlaupararnir sem tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoni á síðasta ári. - Mynd Facebook / Minningar-og styrktarsjóður Ölla

Logi Gunnarsson, körfuknattleiksmaður og æskuvinur Örlygs heitins Sturlusonar afhenti Hjálparstarfi Kirkjunnar eina milljón króna, fyrir hönd Minningar- og styrktarsjóðs Ölla í gær. Fjármununum verður varið til að styrkja börn frá efnaminni fjölskyldum til þátttöku í íþróttastarfi. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar tvö í gær, en sjá má innslagið og viðtal við Loga Gunnarsson hér.

Örlygur Aron Sturluson var eitt mesta efni í sögu íslensks körfubolta. Aðeins 16 ára var hann orðinn lykilmaður í meistaraflokksliði Njarðvíkur. Hann spilaði með unglingalandsliðinu og A-landsliðinu og var orðinn einn af albestu leikmönnum meistaradeildarinnar tímabilið 1999-2000 þegar hann lést af slysförum 16. janúar árið 2000. Félagið er með eftirfarandi facebooksíðu.

Minningar- og styrktarsjóður Ölla hefur það að markmiði að styrkja börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna og hefur meðal annars tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoni undanfarin ár, þar sem hægt er að styrkja hlaupara á vegum sjóðsins.

Stjórn sjóðsins skipa þau Ólafur Stefánsson, handknattleiksmaður, Margrét Sanders, framkvæmdastjóri Deloitte og Halla Heimisdóttir, íþrótta- og lýðheilsufræðingur. Verndari sjóðsins er Þorgrímur Þráinsson.