sudurnes.net
Milljarðar í framkvæmdir á varnarmannvirkjum - Ólíklegt að herinn hafi fasta viðveru - Local Sudurnes
Áætlað er að bandaríski herinn og Atlantshafsbandalagið muni verja tæpum 14 milljörðum króna á næstu árum vegna uppbyggingar og viðhalds á varnarmannvirkjum hér á landi. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu. Í auglýsingu um útboð sem bandarísk yfirvöld birtu í gær kemur fram að á meðal þess sem til stendur að framkvæma að þessu sinni sé stækkun flughlaðs innan öryggissvæðisins, uppsetning á færanlegum gistieiningum og færsla flughlaðs fyrir hættulegan farm. Kostnaðaráætlun þessa hluta framkvæmdanna, sem alfarið verður fjármögnuð af bandaríska ríkinu, nemur rúmum sex milljörðum íslenskra króna. Þá er áætlað að Atlantshafsbandalagið muni verja um 8 milljörðum króna í framkvæmdir á varnarsvæðinu á komandi misserum. Til stendur að umræddar framkvæmdir hefjist á næsta ári og ljúki árið 2023. Nú þegar standa yfir framkvæmdir á varnarsvæðinu á vegum bandaríska hersins fyrir um átta milljarða króna, en þar er um að ræða breytingar á flughlöðum og flugskýlum vegna veru bandarískra kafbátaleitarvéla hér á landi. Bandaríski herinn mun því áfram auka umsvif sín hér á landi, en talskona Bandaríska sjóhersins, Pamela Rawe, sagði þegar útboð á þeim framkvæmdum sem nú eru í gangi á varnarsvæðinu voru opnuð að ólíklegt væri að herinn myndi hafa hér fasta viðveru til lengri tíma litið. Meira frá SuðurnesjumAtvinnusörfari heimsótti Akurskóla – Breytti öllu að segja skilið við áfengi og [...]