sudurnes.net
Meirihluti íbúa Reykjaness hlynntur vopnaburði lögreglu á fjöldasamkomum - Local Sudurnes
Ríflega 47% Íslendinga eru hlynnt því að vopnaðir lögreglumenn séu sýnilegir á fjöldasamkomum á Íslandi en rúmlega 34% eru því andvíg. Þetta kemur fram í könnun Maskínu. Íbúar Reykjaness, ásamt íbúum Vesturlands, Suðurlands og Vestfjarða eru hlynntari vopnaðri lögreglu en íbúar annars staðar á landinu, eða meira en 60% íbúa þessara landshluta á móti rösklega 37% Reykvíkinga. Þá er tekjulægsti hópurinn sömuleiðis hlynntari vopnaburði lögreglu en aðrir tekjuhópar og þeir sem hafa háskólamenntun eru mun andvígari en þeir sem hafa minni menntun. Einnig var spurt „Hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ertu gagnvart lögreglunni?“ og „Myndir þú upplifa þig öruggari eða óöruggari ef það væri vopnuð lögregla á fjöldasamkomu á Íslandi sem þú værir staddur/stödd á?”. Naumlega 88% eru jákvæð gagnvart lögreglunni og stærri hluti þeirra er hlynntur vopnaburði. Næstum helmingur svarenda myndi upplifa sig öruggari ef það væri vopnuð lögregla á fjöldasamkomu á Íslandi sem þeir væru staddir á og næstum 85% þeirra er hlynnt því að hafa vopnaða lögreglumenn sýnilega á fjöldasamkomum. Svarendur voru 1046 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 [...]