Nýjast á Local Suðurnes

Matthías bar sigur úr bítum á Jólapílumóti

Jólamót Stöðvar 2 í pílukasti fór fram þann 6. desember síðastliðinn og var sýnt í sjónvarpinu á jóladag og öðrum degi jóla. Forsvarsmenn Stöðvar 2 buðu tólf þátttakendum á mótið en af þeim voru sex Grindvíkingar. Það var Íslandsmeistarinn Matthías Örn Friðriksson sem bar sigur úr bítum eftir mjög jafna úrslitaviðureign gegn Herði Þór Guðjónssyni. Þeir Grindvíkingar sem tóku þátt í mótinu voru:

Matthías Örn Friðriksson

Pétur Rúðrik Guðmundsson 

Hörður Þór Guðjónsson

Alex Máni Pétursson

Alexander Veigar Þorvaldsson

Björn Steinar Brynjólfsson

Oft var tekið fram í útsendingu að Grindavík væri orðin Mekka pílunnar á Íslandi. Það er ekki að undra enda margir mjög færir píluspilarar sem koma úr sveitarfélaginu, eins og talið er upp hér að ofan, en bæði hafa Pétur Rúðrik og Matthías Örn hampað Íslandsmeistaratitli í 501 sem er algengasti píluleikurinn. Þá hefur Guðjón Hauksson, faðir Harðar Þórs margsinnis orðið Íslandsmeistari í pílukasti, eða oftast allra. En a.m.k. 17 Íslandsmeistaratitlar hafa skilað sér til Grindavíkur frá árinu 1986.