Nýjast á Local Suðurnes

Malbikun flugbrauta lokið – Um 100 starfsmenn frá 15 fyrirtækjum komu að verkinu

Malbikun flugbrautanna á Keflavíkurflugvelli er nú lokið, en klippt var á borða við opnun austur-vestur brautarinnar á dögunum. Framkvæmdir hófust sumarið 2016 og en heildarverkið er að malbika báðar flugbrautirnar, skipta út öllum raflögnum og flugbrautarljósum út fyrir orkusparandi díóðuljós.

Verkið var boðið út og varð ÍAV fyrir valinu sem aðalverktaki. Fjöldi annarra fyrirtækja hafa tekið þátt sem undirverktakar; Hlaðbær Colas sá um malbiksvinnuna en einnig komu að verkinu breskir og norskir verktakar. Verkfræðistofan Efla sér um eftirlit með framkvæmdinni. Um 100 starfsmenn frá 12-15 fyrirtækjum hafa unnið beint að verkefninu.

Kostnaður við framkvæmdina er um sjö milljarðar króna en malbikunarhluti verkefnisins jafnast á við allar malbikunarframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu á einu ári.