Nýjast á Local Suðurnes

Málafjöldi Suðurnesjalögreglu hjá Nefnd um eftirlit með lögreglu tvöfaldast á milli ára

Mynd: Lögreglan á Suðurnesjum

Málafjöldi lögreglunnar á Suðurnesjum sem tekinn hefur verið fyrir hjá Nefnd um eftirlit með lögreglu (NEL) rúmlega tvöfaldaðist á milli áranna 2017 og 2018. Málin voru fjögur árið 2017, árið sem nefndin tók til starfa en árið eftir voru málin tíu talsins. Ekki hafa verið teknar saman tölur fyrir síðasta ár.

Í svari við fyrirspurn Suðurnes.net varðandi eðli þeirra mála sem snúa að lögreglunni á Suðurnesjum og borist hafa inn á borð nefndarinnar sagðist Drífa Kristín Sigurðardóttir, lögfræðingur og starfsmaður nefndarinnar, ekki geta tjáð sig um það þar sem nefndin hefði ekki mannafla til þess að fara í frekari niðurbrot slíkum gögnum, en í tölfræðigögnum sem birt eru í skýrslum nefndarinnar eru dregin saman mál á öll lögregluembætti landsins. Sé tekið mið af þeim tölum þá snéru flestar kvartanir til nefndarinnar að framkomu lögreglu og næst flestar kvartanir sem bárust voru vegna handtöku. Þriðji stærsti flokkurinn varðar ætluð brot gegn þagnarskyldu og meðferð upplýsinga. Að lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu undanskilinni eru flest mál sem nefndin hefur tekið til umfjöllunar á hendur lögreglunni á Suðurnesjum.

Ekki hefur verið tekin saman tölfræði á einstök lögregluembætti fyrir árið 2019 og sagði Drífa að búast mætti við þeim upplýsingum um mitt ár. Þó hefur nefndin birt upplýsingar um heildarmálafjölda og er hann svipaður og á síðasta ári.

Að minnsta kosti eitt mál vegna lögreglunnar á Suðurnesjum er til skoðunar hjá nefndinni, en það varðar eftirför lögreglu á Sandgerðisvegi þann 18. janúar síðastliðinn, en í kjölfar eftirfarar lögreglu varð harður árekstur tveggja bifreiða þar sem ökumaður annarar þeirra slasaðist alvarlega. Ekki fengust svör við spurningum um stöðu þeirrar rannsóknar.