Nýjast á Local Suðurnes

Mál gegn fyrrum yfirlögfræðingi lögreglunnar á Suðurnesjum fellt niður

Mál á hendur Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, aðallögfræðingi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, vegna svokallaðs LÖKE-máls hefur verið fellt niður. Alda Hrönn rannsakaði málið þegar hún var staðgegngill lögreglustjóra á Suðurnesjum og yfirlögfræðingur hjá sama embætti.

Forsaga málsins er sú að lögreglumaður var kærður fyrir að fletta upp fjölda kvenna í fyrrnefndu kerfi. Hann var sakaður um að hafa dreift upplýsingunum um konur til félaga sinna. Fallið var frá þeim ákærulið. Lögreglumaðurinn var dæmdur í Hæstarétti fyrir trúnaðarbrot með því að hafa sent tölvuskeyti á Facebook til annars einstaklings með upplýsingum sem leynt áttu að fara.

Í yfirlýsingu sem Alda Hrönn sendi frá sér og birt er að hluta á vef DV kemur fram að settur héraðssaksóknari hafi komist að því að ekkert hafi komið fram við rannsókn málsins á hendur henni sem styðji þær ásakanir sem á hana voru bornar hafi verið tilefni rannsóknarinnar.

Þá segir hún að niðurstaða setts héraðssaksóknara hafi verið afdráttarlaus en þar segi meðal annars;

„Eins og mál þetta liggur fyrir er þó ekkert sem bendir til þess að kærða hafi í heimildarleysi rannsakað málið, aflað upplýsinga, dreift nektarmyndum eða borið rangar sakargiftir á kærendur. Enn fremur hafa ekki komið fram neinar upplýsingar sem færa rök að því að kærða hafi veitt fjölmiðlum upplýsingar sem leynt áttu að fara, eða dreift þeim með ólögmætum hætti, líkt og haldið er fram í kæru. Þvert á móti verður að líta svo á að aðkoma kærðu að málinu hafi verið í samræmi við munnleg fyrirmæli ríkissaksóknara, eins og upplýsingar um þau fyrirmæli liggja fyrir.[…]“