Nýjast á Local Suðurnes

Lögregla um slæma meðferð á hælisleitanda: “Vildi frekar sofa en borða”

Vegna ummæla Kristrúnar Elsu Harðardóttur hdl. í fjölmiðlum þess efnis að farþegi sem stöðvaður var með fölsuð skilríki í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 18. ágúst sl. hafi verið í haldi lögreglu frá því snemma morguns við „ómannúðlegar aðstæður og ekkert fengið að borða á þeim tíma“ vill embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum koma eftirfarandi leiðréttingu á framfæri:

Í bókun um málið kemur skýrt fram að þegar umræddur aðili var kominn í umsjá lögreglu í flugstöðinni var hann spurður hvort hann vildi fá eitthvað að borða. Hann kvaðst frekar vilja sofna meðan beðið var eftir skilríkjasérfræðingi. Lögreglumaður  sá þá til þess að vel færi um hann og óskaði aðilinn „ekki eftir frekari aðstoð,“ eins og segir í bókuninni. Hann var svo vistaður á lögreglustöð frá kl. 15:30 – 19:03 þann 18. ágúst. Aðilanum var því boðin öll sú aðstoð sem fyrir hendi var meðan hann var í umsjá lögreglu.