Nýjast á Local Suðurnes

Ljósabekkjunum stungið í samband á ný – “Full tilhlökkunar og spennt fyrir framhaldinu”

Ljósabekkjunum á sólbaðsstofunni Sunny Kef við Hafnargötu verður stungið í samband á ný á mánudag, en stofan hefur verið lokuð frá því að samkomubann tók gildi hér á landi þann 24. mars síðastliðinn. Sólbaðsstofan opnaði í september á síðasta ári og því óhætt að segja að tímastening samkomubanns hafi verið óheppileg fyrir ungt fyrirtæki. Marý Linda Jóhannsdóttir, annar eigandi Sunny Kef er þó hvergi bangin og lítur björtum augum til framtíðar.

“Samkomubannið stóð yfir þá mánuði sem það ætti að vera mest að gera hjá okkur, eða frá mars fram í maí og hefur því eðlilega haft töluverð áhrif á rekstur fyrirtækisins,” segir Marý í spjalli við blaðamann, og bætti við að hún væri spennt fyrir framhaldinu og full tilhlökkunar yfir að geta opnað á ný á mánudag.

Farið verður í einu og öllu eftir þeim reglum sem gilda eftir 4. maí, þannig verður fyllsta hreinlætis gætt, allt sótthreinsað í bak og fyrir auk þess sem gætt verður að fjarlægðartakmörkunum og tveggja metra reglan höfð í hávegum. Þegar er byrjað að taka við tímapöntunum á Sunny Kef, en það má gera með einu símtali í Marý í símanúmerið 568 2300 eða með skilaboðum í gegnum Facebook-síðu stofunnar.