Nýjast á Local Suðurnes

Leysa húsnæðisvanda Háaleitisskóla – Reykjanesbær kaupir tvö hús á Ásbrú

Reykjanesbær hefur fest kaup á tveimur húsum nálægt Háleitisskóla á Ásbrú, en með mikilli fjölgun íbúa á Ásbrúarsvæðinu þurfti Reykjanesbær meðal annars að tryggja skóla- og leikskólapláss á svæðinu. Starfsemi Frístundar og Goðheima mun flytjast í húsnæðið sem Reykjanesbær festi kaup á.

Ekki þarf því að ráðast í jafn kostnaðarsamar aðgerðir og reiknað hafði verið með til að tryggja börnum skólapláss á Ásbrú, en Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, lýsti fyrr í sumar áhyggjum yfir ástandinu sem gæti skapast með mikilli fjölgun íbúa á Ásbrú.

“Reykjanesbær þarf að geta boðið nægan fjölda leikskólaplássa og tekið við nýjum grunnskólanemendum strax í haust.” Sagði Kjartan í Pistli á Facebook-síðu sinni “Því má gera ráð fyrir að mikill og skyndileg útgjöld falli á sveitarfélagið þegar rokið verður af stað að bregðast við stöðunni en ríkið hefur ekki viljað ljá máls á því að koma að þessari uppbyggingu með því t.d. að skilja eitthvað eftir af þeim milljörðum sem fengust fyrir sölu eignanna.”

Reykjanesbær fékk á dögunum afhent húsnæði að gjöf undir nýjan leikskóla frá leigufélögunum Ásbrú íbúðir hf. og Heimavöllum og verður hafist handa við að breyta því á næstunni.

Ekki fengust upplýsingar um kaupverð, stærð eða seljendur húsanna tveggja í nágrenni Háaleitisskóla frá Reykjanesbæ fyrir birtingu fréttarinnar.