Nýjast á Local Suðurnes

Leikskólar verði lokaðir um jól og í dymbilviku

Fræðsluráð Reykjanesbæjar  hefur falið sviðsstjóra fræðslusviðs að útfæra tillögur varðandi starfstíma leikskóla þannig að stefnt sé að því að vinnufyrirkomulag í leikskólum verði sambærilegra öðrum skólastigum, þá sérstaklega í grunnskólum.

Fyrsta skrefið í því er að leikskólar bæjarins verða lokaðir á milli jóla og nýárs frá og með árinu í ár og á seinni stigum yrði það fyrir páska, dymbilviku.

Tillögurnar gera ráð fyrir að lokanir  hafi ekki áhrif á launakjör starfsfólks leikskólanna og að ekki verði innheimt leikskólagjöld þá daga sem leikskólar eru lokaðir.

Kostir og gallar þessa verði greindir á næstunni og skal greiningin meðal annars ná utan um nýtingu á leikskólaplássum þessa daga, viðhorfi foreldra til þess að leikskólastarf sé skert að hluta eða öllu leyti á umræddum tíma, viðhorf starfsfólks til lokunar að hluta eða öllu leyti í dymbilviku og á milli jóla og nýárs sem og kostnaðargreining.

Uppfært 24 janúar 2020: Á þessu ári verða leikskólar lokaðir á milli jóla og nýárs. Lokun í dymbilviku er í skoðun og verður ákveðin síðar. Texta fréttarinnar hefur verið breytt miðað við þessar upplýsingar.