Nýjast á Local Suðurnes

Leggur til að sveitarfélögin á Suðurnesjum skipuleggi svæði fyrir Samviskugarða

Reykjanesbær hefur til skoðunnar að opna svokallaða Samviskugarða, sem ganga út á það að jafna kolefnisspor íbúa sveitarfélagsins, en vel var tekið í tillögu þess efnis á fundi Umhverfis- og skipulagsráðs í vikunni.

Ásmundur Friðriksson lagði fram tillöguna um að sveitarfélagið, og jafnvel öll sveitarfélögin á Suðurnesjum skipuleggi svæði fyrir samviskubit okkar, svokallaða Samviskugarða, en þar gætu þeir íbúar sem vildu jafna kolefnissporin sín gróðursett tré á skipulögðum svæðum innan sveitarfélaganna á opnum svæðum og í nánasta umhverfi þeirra. Margir gætu þá tekið beinan þátt í að fegra umhverfið og jafna kolefnissporið sem við skiljum eftir okkur, segir í fundargerð Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar.

Ráðið fagnar góðri hugmynd og er hún í samræmi við hugmyndir Umhverfissviðs. Umhverfissvið mun vinna málið áfram.