Nýjast á Local Suðurnes

Leggur til að nýtt tjaldsvæði verði í Njarðvíkurskógum

Líklegast er að nýtt tjaldsvæði í Reykjanesbæ verði staðsett í Njarðvíkurskógum eða við Víkingaheima. Þessir staðir koma best út varðandi staðsetningu, stærð og nálægð við þjónustu samkvæmt mati skipulagsstjóra Reykjanesbæjar, en minnisblað hans vegna þessa var tekið fyrir á fundi umhverfis og skipulagsráðs sveitarfélagsins á síðasta fundi ráðsins.

Í minnisblaðinu er farið yfir kosti og ókosti svæðanna tveggja. Helstu ókostir við að staðsetja tjaldsvæði við Víkingaheima eru fjarlægð í alla afþreyingu og staðsetningu mögulegra viðburða.

Njarðvíkurskógar eru hinsvegar talinn vera betri staður vegna möguleika á sveigjanleika á stærð svæðisins og nálægðar við verslun og þjónustu, náttúru, íþróttamannvirki og Reykjanesbraut auk fjarlægðar frá næstu íbúabyggð, þó án þess að vera í jaðri byggðar.

Í Njarðvíkurskógum er gert ráð fyrir tjaldsvæði í aðalskipulagi og svæðið er spennandi útivistarsvæði í þróun sem býður upp á margvíslega möguleika, segir í minnisblaðinu.

Í minnisblaði verkefnastjóra ferðamála frá því í október síðastliðnum um tjaldsvæði í Reykjanesbæ var lagt til að staðsetja tjaldsvæði við Vatnsholt, á svæði Skógræktarfélags Suðurnesja. Ekki var tekin afstaða til þeirrar staðsetningar á fundi ráðsins að þessu sinni.